Paris Hilton sagði í viðtalsþætti Larri King á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN í nótt, að þótt hún sé vatnsberi og því félagslynd hafi fangavist hennar í rúmar þrjár vikur kennt henni, að fleira sé mikilvægt í lífinu en að skemmta sér.
„Ég er orðin hundleið á því," sagði Hilton, sem er 26 ára. „Ég hef verið úti á lífinu lengi. Jú, auðvitað er það gaman en það verður ekki aðalatriðið í mínu lífi héðan í frá."
Hún sagði, að fangavistin hefði verið mjög erfið lífsreynsla og hún hefði lagt þar upp í ferð sjálfskönnunar, sem hún ætlaði að halda áfram. Heimurinn myndi sjá nýja Paris Hilton.
Paris var dæmd til fangelsisvistar eftir að hafa verið staðin að því að aka bíl án ökuréttinda en hún missti réttindin um stundarsakir vegna ölvunaraksturs.
„Það er gott að það gerðist því þetta hefur breytt lífi mínu. Ég er sterkari en nokkru sinni áður og mér finnst að þetta hafi verið mjög lærdómsríkt.
Hilton sagðist nú ætla að nýta sér frægð sína til að vekja frekar athygli á félagslegum vandamálum en nýjasta næturklúbbnum í Hollywood.
„Mér finnst gaman að vera í sviðsljósinu. Ég get vakið athygli á svo mörgum málum í stað þess að sinna bara yfirborðslegum hlutum. Ég vil safna fé handa börnum, handa fólki með brjóstakrabbamein og MS."
Hilton sagði það útbreiddan misskilning að hún lifði á eignum fjölskyldu sinnar. „Ég vinn mikið. Ég rek fyrirtæki. Ég hef átt bók á metsölulista New York Times. Ég hef verið með sjónvarpsþátt í fimm ár. Ég gerði hljómplötu. Ég hef leikið í kvikmyndum."
Þá sagði hún að fjölmiðlar hefðu málað ýkta mynd af skemmtanalífi hennar. Hún sagði ítrekað í viðtalinu að hún hefði aldrei notað fíkniefni og ætti ekki við áfengisvandamál að stríða.
Hilton var ein í klefa sínum í fangelsinu í 23 tíma á sólarhring og sagðist hafa notað tímann til að lesa, skrifa og hugsa. Paris sagðist alltaf hafa verið trúuð og hefði tekið með sér biblíu úr fangelsinu og læsi hana daglega.
Í viðtalinu las Paris nokkrum sinnum úr dagbók, sem hún hélt í fangaklefanum og andvarpaði ávallt djúpt áður en hún hóf lesturinn. Þá sagðist hún þjást af innilokunarkennd og athyglisbresti og tæki lyf við þessu. Fulltrúar lögreglustjóra hefðu fallist á að hún fengi að afplána refsinguna heima hjá sér eftir að hún hafði verið í fangelsinu í þrjá daga vegna innilokunarkenndar hennar og kvíðakasta.
Dómari skipaði Hilton að ljúka afplánuninni í fangelsi og Paris sagðist hafa tekist á við það með hugleiðslu og lestri aðdáendabréfa. Hún sagðist þó enn fá martraðir á nóttinni og héldi að einhver væri að brjótast inn í klefann og vinna henni mein.