Breski leikarinn Daniel Craig hefur gefið í skyn að hann muni ekki leika í fleiri myndum um leyniþjónustumann hennar hátignar, að næstu mynd lokinni. Craig var, af nánast öllum, lofaður fyrir frammistöðu sína í myndinni Casino Royale sem var sögð marka nýtt upphaf myndaraðarinnar um James Bond.
Í viðtali sagði Craig að hann hefði ekki áhuga á að leika í „leyniþjónustumyndum" það sem eftir lifði af hans ferli og að draumur hans væri að geta tekið að sér eins ólík hlutverk og mögulegt væri.
Tilkynnt var fyrir stuttu að leikstjóri næstu myndar, Bond 22, yrði Þjóðverjinn Marc Forster. Forster hefur áður stýrt myndum á borð við Finding Neverland með Johnny Depp og Monster's Ball.
Mun hann einnig koma að gerð handritsins og nýtur þar aðstoðar Paul Haggis sem átti handritið að Casino Royal. Haggis þessi gerði áður garðinn frægan með handriti sínu að Óskarsverðlaunamyndinni Crash.