Sir Elton John hóf minningartónleika um Díönu prinsessu, sem nú standa yfir á Wembleyleikvanginum í Lundúnum. Yfir 60 þúsund manns sækja tónleikana, sem þeir Vilhjálmur og Harry, synir Díönu, áttu þátt í að skipuleggja en móðir þeirra hefði orðið 46 ára um helgina hefði hún lifað. Mikil öryggisgæsla er á tónleikunum vegna atburða á Bretlandseyjum um helgina.
Prinsarnir fóru upp á svið í upphafi tónleikanna og Harry hrópaði: Halló Wembley, en Vilhjálmur sagði, að tónleikarnir táknuðu allt sem móðir þeirra hefði notið á meðan hún var á lífi: Tónlis, dans, góðgerðarstarfsemi og fjölskyldu og vini.
Elton John, sem var góður vinur Díönu, söng lagið Your Song. Meðal annarra sem koma fram eru Duran Duran og Supertramp.