Tom Cruise hefur í hyggju að leika Claus von Stauffenberg í myndinni Valkyrie, en von Stauffenberg var lykilmaður í misheppnuðu ráðabruggi um að ráða Hitler af dögum. Berthold Maria Schenk Graf von Stauffenberg, sonur Claus, er hins vegar ekki alls kostar hrifinn af ráðabruggi Cruise og spáir því að það verði enn misheppnaðra en ráðabrugg föður hans.
Þá er hann ekki hrifinn af því að meðlimur vísindakirkjunnar komi nálægt arfleifð föður síns og í viðtali við Bild am Sontag segist hann óttast að myndin verði algjört rusl og hvetur Cruise til þess að fara frekar í fjallgöngu.
Stauffenberg er hetja í Þýskalandi fyrir þátt sinn í að ráða Hitler af dögum þann 20. júlí 1944. Ætlunin var að smygla tveimur skjalatöskum með sprengjum inn á skrifstofu foringjans en þegar það gekk ekki var hann líflátinn daginn eftir. Valkyrie er leikstýrt af Bryan Singer sem nýlega hefur einbeitt sér að ofurhetjum eins og Superman og X-Men en hann hefur þó nokkra reynslu af því að fjalla um nasista því önnur mynd hans, hin stórlega vanmetna Apt Pupil, fjallar um ungan dreng sem verður heltekinn af því að líkjast sem mest gömlum nasistaforingja sem hann kemst að að býr í götunni.
Mynd Singer er þó alls ekki fyrsta myndin um tilræðið við Hitler, áður hafa Þjóðverjar sjálfir gert Það gerðist 20. júlí (Es Geschah am 20. Juli) árið 1955 og fyrir þremur árum myndina Stauffenberg auk þess sem Bandaríska sjónvarpsmyndin The Plot to Kill Hitler var gerð um efnið árið 1990. Sonurinn var hins vegar ekki hrifinn af þessum myndum heldur, honum þótti þýsku myndirnar ónákvæmar og sjónvarpsmyndin bandaríska hreint afleit.
Þá eru þýsk stjórnvöld á móti komu Cruise til landsins sökum þátttöku hans í Vísindakirkjunni, sem þýska stjórnin lítur á sem ómerkilegt gróðabrask dulbúið sem kirkju. Það er svo fjármálaráðuneytið þýska sem á lokaorðið í þessu máli.