Í TILEFNI þess að reykingabann á enskum skemmtistöðum tók gildi í gær velta bókmenntaskríbentar Guardian fyrir sér hverjir séu eftirminnilegustu reykingamenn bókmenntasögunnar.
Ýmsir eru nefndir til sögunnar; úr Moby Dick kemur Ahab skipstjóri með pípuna sína, Alan Sillitoe skrifaði að reykingar væru helsta lausn daglaunamanna í verksmiðjum og Leopold Bloom í Ulysses er einnig nefndur. Frumlegustu reykingarnar stundar líklega Joe í The Borstal Boy eftir Brendan Behan, en hann notaði Biblíuna til að vefja sér rettur, alls ómeðvitaður um fullyrðingar Míkhaíls Búlgakovs um að bækur brynnu ekki.
Þá eru ótaldir ótal einkaspæjarar úr sögum Raymonds Chandlers og Dashiells Hammetts sem sjálfsagt yrði erfitt að fá til þess að hlíta reykingabanni án þess að kæmi til stympinga. Ljóst er þó að bannið undirstrikar enn stereótýpu reykingamannsins í bókmenntum sem hinn eilífi utangarðsmaður og vandræðaseggur. Svo er bara að sjá hvort einhver skáldsagan sé ekki að fæðast á nýja skemmtistaðnum á milli Ölstofunnar og Vegamóta...