Í GÆR greinir DV frá því að Geir Ólafsson hafi haft falsað meðmælabréf frá Geir H. Haarde undir höndum þegar hann fór að hitta talsmenn Nancy Sinatra, en hún mun væntanlega halda tónleika hér á landi í október.
Aðspurður sagði Geir Ólafsson að þetta bréf hefði verið samið en það hefði ekki gefist tími til þess að senda það til nafna hans forsætisráðherra til undirskriftar. "Ég er með þetta í tölvunni minni en hef aldrei svo mikið sem prentað þetta út," segir söngvarinn og því hafi þetta bréf aldrei verið notað í samningaviðræðum við umboðsmenn Nancy Sinatra. "Þá vil ég bara biðja forsætisráðherra okkar fyrirgefningar á því ónæði sem þetta kann að hafa valdið honum," sagði Geir Ólafsson að lokum.