Ísbjarnahúnninn Knútur nýtur gífurlegra vinsælda en alls hefur ein milljón gesta komið í dýragarðinn í Berlín í Þýskalandi til þess að heilsa upp á húninn. Forsvarsmenn dýragarðsins segja að á síðasta ári hafi um 2,3 milljónir sótt garðinn heim en í ár megi búast við því að tæplega þrjár milljónir leggi leið sína þangað. Er það einkum Knútur sem er aðdráttaraflið í ár en gott tíðafar spillir heldur ekki fyrir.
Þrátt fyrir vinsældir Knúts velta þýskir fjölmiðlar því fyrir sér hvort ekki sé tími til kominn að hætta með daglegar sýningar á Knúti enda stækki hann hratt og muni fljótlega missa áhugann á því að fíflast með þjálfara sínum, Thomas Doerflein.
Knútur, sem fæddist þann 5. desember sl., er alinn upp af Doerflein og öðru starfsfólki í garðinum eftir að móðir hans hafnaði honum. Knútur hefur verið til sýnis í dýragarðinum frá því í mars. Knútur er orðinn 42 kg og segir Doerflein að sýningin taki meira á nú en fyrir nokkrum mánuðum. Að sögn Doerflein er erfitt að hemja Knút þegar hungrið sverfur að og á hann það þá til að bíta og það fast. Enda er Knútur villidýr þrátt fyrir að vera alinn upp í dýragarði, að sögn Doerflein.