Nýr sönghópur hefur litið dagsins ljós, Luxor. Um er að ræða fimm karlsöngvara en í lok maí stóð Einar Bárðarson fyrir áheyrnarprófum þar sem leitað var að karlkyns söngvurum á aldrinum 18 til 35 ára. Einar hefur áður komið saman svipuðum sönghóp en með kvenkyns söngvurum og nefnist sá hópur Nylon.
Samkvæmt fréttatilkynningu mun Luxor flytja blöndu af klassískri-, trúar- og dægurtónlist á söngskemmtunum í sumar.
Alls tóku rúmlega 60 karlmenn víðsvegar af landinu þátt í áheyrnarprófinu. Sönghópinn Luxor skipa: Rúnar Kristinn Rúnarsson, Sigursveinn Þór Árnason, Heimir Bjarni Ingimarsson, Arnar Jónsson og Edgar Smári Atlason.
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson mun stýra upptökum á fyrstu plötu Luxor ásamt Vigni Snæ Vigfússyni en undirbúningur er þegar hafinn. Upptökur fara fram bæði hér á landi og erlendis. Strákarnir verða við upptökur í hljóðveri í ágúst en platan kemur í verslanir þann 29. október.