Eftir mikla keppni milli 14 bandarískra borga, sem bera nafnið Springfield, var tilkynnt í kvöld að borgin í Vermont sé opinber heimaborg Simpson-fjölskyldunnar vinsælu. Verður ný teiknimynd um fjölskylduna, The Simpsons Movie, því frumsýnd í Springfield í Vermont 26. júlí.
Kvikmyndaverið 20th Century Fox stóð fyrir netkosningu á heimasíðu USA Today þar sem fólk gat gefið myndböndum frá borgunum 14 atkvæði. Mikið var lagt í myndböndin og fékk Springfield í Massachusetts m.a. Ted Kennedy, öldungadeildarþingmann ríkisins, til að taka þátt í sprellinu.
„Við erum afar spennt," sagði Patricia Chaffee, varaformaður viðskiptaráðs Springfield. „Við tókum þátt á síðustu stundu, við töldum okkur ekki eiga neina möguleika og þess vegna var sigurinn sætur."
9300 manns búa í Springfield í Vermont og er það minnsti bærinn af þeim 14 sem bera þetta nafn í Bandaríkjunum. Framlag bæjarins í myndskeiðakeppninni sýndi leikara í gervi Homers Simpsons elta risastóran bleikan kleinuhring um götur bæjarins.
Hinir Springfieldbæirnir 13 fá einnig að sýna nýju myndina áður en sýningar hefjast um öll Bandaríkin 27. júlí.