Stúlkum undir sextán ára aldri ætti að vera óheimilað að taka þátt í fyrirsætustörfum á tískuvikunni í Lundúnum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem breski tískuiðnaðurinn lét framkvæma.
Á fréttavef BBC kemur fram að ráðgjafar forsvarsmanna tískuvikunnar telji það algjörlega óviðunandi að ungar stúlkur taki að sér hlutverk fullorðinna kvenna á tískuvikunni. Tískuvikan í Lundúnum er haldin í september ár hvert. Sú spurning hefur vaknað líkt og víða annars staðar hvort fyrirsæturnar sem taka þátt í tískuvikunni séu of grannvaxnar og eru forsvarsmenn tískuvikunnar undir miklum þrýstingi að setja reglur um holdafar þeirra kvenna sem sýna á tískuvikunni.