Á miðvikudag kemur söngvarinn Garðar Thór Cortes fram í einum vinsælasta sjónvarpsþætti Bretlands, Good morning Television, á ITV sjónvarpsstöðinni, en meðaláhorf á þáttinn er rúmlega fimm milljónir.
Á þriðjudaginn birtist viðtal við Garðar í OK magazine þar sem hann kynnir tónleikana sína í Barbican Centre í haust.
"Ég er voðalega spenntur yfir þessu. Þetta verður örugglega mjög gaman. Ég hef verið mikið hér í Bretlandi þannig að ég þekki þáttinn og ég veit að þeir vinna tónlistaratriði mjög vel. Svo er ég náttúrulega að undirbúa tónleikana í Barbican Centre og ég hlakka alveg rosalega til," segir söngvarinn í fréttatilkynningu.