Áratugalangri leit Kínverjans Bao Xishun að eiginkonu lauk loks í morgun þegar hann giftist Xia Shujun í hefðbundinni hirðingjaathöfn á steppum Innri-Mongólíu í Kína en þaðan eru brúðhjónin bæði. Bao, sem er 56 ára gamall, er hæsti maður heims, 2,36 metrar á hæð, og þótt eiginkona hans sé í meðallagi há, 1,68 metrar, nær hún honum aðeins í mitti.
Á myndum, sem birst hafa af brúðhjónunum í dag, sést Bao klæddur í sægrænan silkislopp við hlið Xia, sem klædd er rauðum hátíðarskrúða. Brúðkaupsveislan hófst snemma í morgun og mun standa fram á rauða nótt.
Xia hefur sagt í viðtölum við kínverska fjölmiðla, að hæðarmismunur þeirra hjóna skapi engin vandamál. Fréttastofan Xinhua hafði eftir Xia í mars, að eftir að hún fór að kynnast Bao betur hafi hún hætt að taka eftir því hve hann er hávaxinn enda sé hann afar umhyggjusamur maður.
Bao er vel þekktur í Kína. Hann hafði verið piparsveinn alla ævi en lýsti því yfir í fyrra að hann væri að svipast um eftir eiginkonu. Tugir kvenna gáfu sig þá fram og lýstu áhuga á að giftast Bao.
Bao komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar hann nýtti handleggjalengd sína til að sækja plastdrasl, sem fests hafði í maga tveggja höfrunga í sædýrasafni í norðausturhluta Kína.
Heimsmetabók Guinness staðfesti á síðasta ári, að Bao væri hæsti núlifandi maðurinn.