Tilfinningaþrungið lag frá Fergie og félögum í Black Eyed Peas ryðst í fyrsta sæti íslenska lagalistans. Poppdívan baunar útúr sér hjartnæmum yfirlýsingum um ástarsorg og óseðjandi þrár, en hlustandinn fær það á tilfinninguna að þessar ólgandi kenndir geti ekki annað en ruðst fram á varir söngkonunnar er barki hennar þenst í óhjákvæmilegum og hádramatískum söng.
Stórkostlegt lag sem nefnist „Big Girls Don't Cry" og hugnast Íslendingum greinilega vel. Þeir eru enda í ástargírnum um þessar mundir, lag Páls Óskars, „Allt fyrir ástina," helst í öðru sætinu.
Íslenskir nýliðar á listanum eru kjarnakvendin hressu í Dúkkulísunum. Þær syngja lagið „Hvað á að gefa konum?" en strax á hæla þeirra fylgir önnur hress og skemmtileg sveit, Sniglabandið. Þeir útlista fyrir hlustendum hvað kaupstaðurinn Selfoss er.
Ellismellurinn að þessu sinni er svo lagið „Freight Train" í flutningi trúbadoranna Péturs Ben, Ólafar Arnalds og Lay Low.