Lögreglustjórinn í Los Angeles hefur látið hefja rannsókn á því hvort Paris Hilton hafi notið sérmeðferðar í fangelsinu þá 23 daga sem hún dvaldi þar. Ásakanir hafa verið uppi um slíkt en Hilton var dæmd í fangelsi fyrir að keyra undir áhrifum áfengis án ökuleyfis.
Er verið að rannsaka hvort eitthvað sé hæft í ásökunum um að hún hafi haft frjálsan aðgang að síma í klefa sínum í stað þess að þurfa að standa í biðröð við símasjálfsala í fangelsinu, að sögn talsmanns lögreglustjóra, Steve Whitmore.
Jafnframt hvort hún hafi fengið nýjan fangabúning í stað þess að þurfa að nota fangabúning sem einhver annar hafi notað áður og að hafa fengið póstinn sinn afhentan af yfirmanni í fangelsinu í stað þess að fá hann borinn út af samföngum.