„Þetta leit ekki vel út," segir Kristín Þórhallsdóttir, skálavörður í Langadal í Þórsmörk, en hún fór ásamt öðrum skálaverði á traktor út í Krossá síðastliðinn sunnudag á eftir bílaleigubíl sem svissneskt par hafði ekið út í ána. "Þau komast ekki út, vatnið nær þeim upp að brjósti og þau sjá ekkert út vegna öldugangs og vita því ekki hvort þau eru komin á kaf eða ekki. Stelpan reynir að bjarga verðmætum og skilur ekki hvers vegna strákurinn passar bara upp á jakkann sinn. Upp úr jakkanum flýtur síðan lítið box sem strákurinn grípur og opnar og í því er hringur. Hann biður stúlkuna að giftast sér, en þau halda bæði að þetta sé þeirra síðasta, og svarar hún að hún muni aðeins giftast honum ef hann bjargi lífi þeirra. Í sama mund komum við á traktornum og drögum þau á land," segir Kristín og bætir við að líklega sé þetta fyrsta parið sem trúlofi sig í Krossá en haldin var mikil grillveisla um kvöldið þeim til heiðurs og var þeim boðin gisting í skálanum í Langadal í kjölfarið.
Kristín segir mikið í Krossánni núna og ekki gott að komast yfir hana. Nokkuð hafi verið um það að fólk lendi í vandræðum í ánni og ráðleggur Kristín fólki að leggja bílum sínum í stæði og fara yfir göngubrúna í stað þess að leggja í ána.