Harry Kirkpatrick gæti fljótlega orðið einn alræmdasti kvikmyndaleikstjóri Hollywood. Kirkpatrick er þó tæknilega séð ekki til en hefur þrátt fyrir það þegar leikstýrt einni bíómynd Alecs Baldwin, Shortcut to Happiness, og miðað við fyrri reynslu þá á hann eftir að leikstýra mörgum í viðbót.
Kirkpatrick er nefnilega nýja dulnefnið sem Hollywood hefur búið til fyrir leikstjóra sem ekki vilja ljá myndum sínum nafn sitt, hvort sem er af skömm eða sökum þess að valdið yfir myndinni var tekið af þeim. Nafn Alans Smithee var lengi notað í þessum tilgangi en Smithee var orðinn óþarflega frægur og á endanum rataði nafn hans í titil myndar, Alan Smithee: Burn, Hollywood, Burn. Vitaskuld endaði hann á að fá heiðurinn að leikstjórninni þeirrar myndar sem reyndist svanasöngur hans. Það er hins vegar Alec Baldwin sjálfur sem upphaflega var titlaður leikstjóri af Shortcut to Happiness (sem hét The Devil and Daniel Webster þegar Baldwin fékk einhverju ráðið) og sir Anthony Hopkins og Jennifer Love Hewitt leika á móti honum.