Hljómsveitin Rolling Stones fékk greiddar 2,4 milljónir punda, 331 milljón króna, fyrir að spila í veislu á vegum Deutsche Bank í listasafni í borginni Barcelona á Spáni. Spilaði hljómsveitin í 80 mínútur og var mínútuverðið því rúmar fjórar milljónir króna.
Alls voru fimm hundruð manns í veislunni og kallaði Mick Jagger, söngvari hljómsveitarinnar, til fjöldans í lok tónleika: „takk fyrir að taka svona vel á móti okkur. Það besta er hins vegar að þið greiðið fyrir þetta með kaupaukunum ykkar."
Íslandsvinir með lægri kauptaxta
Meðlimir Rolling Stones, sem hafa fengið allt að fjórar milljónir punda, 400 milljónir króna, fyrir að koma fram í einkaveislum, eru ekki einu tónlistarmennirnir sem hafa haft gott upp úr því að koma fram í veislum sem þessum. Bandaríska hljómsveitin Eagles tekur yfirleitt 3,75 milljónir punda fyrir slíkt og kanadíska söngkonan Celine Dion fær oft greiddar 3,3 milljónir punda. Elton John, sem meðal annars kom fram í fimmtugsafmæli Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, tók nýverið eina milljón punda, tæpar 123 milljónir króna fyrir að koma fram í brúðkaupi í Bretlandi.
Hins vegar er mun ódýrara að fá rapparann 50 Cent til þess að koma fram í einkaveislum, en hann kom meðal annars fram í fertugsafmæli Björgólfs Thors Björgólfssonar á Jamaíka, eða 250 þúsund pund, 31 milljón króna. Segir 50 Cent að hann sé að vísu ekki með ákveðna verðskrá en þetta taki hann að meðaltali fyrir að spila í þrjátíu mínútur.