Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík verður haldin í fjórða sinn frá 27. september til 7. október. Alls verða um áttatíu myndir á dagskránni og samkvæmt tilkynningu frá hátíðarhöldurum verður glænýrri og ferskri kvikmyndagerð gefinn sérstakur gaumur. Keppnisflokkurinn Vitranir er sem fyrr frátekinn fyrir fyrstu eða önnur verk leikstjóra og ein myndanna mun hljóta titilinn „uppgötvun ársins.“
Af öðrum staðfestum flokkum í dagskránni má nefna flokkinn Fyrir opnu hafi, þar sem bestu myndir síðustu tólf mánaða eru sýndar; Sjónarrönd, þar sem kvikmyndagerð einnar þjóðar er í forgrunni.
Einnig verður úrval nýrra og áhugaverðra heimildarmynda; og sívinsælar Miðnæturmyndir þar sem hið óvenjulega og hryllilega er jafnan í forgrunni.
Þá stendur enn fremur til að sýna úrval nýlegra íslenskra kvikmynda, bæði handa erlendum gestum og Íslendingum sem misstu einhverra hluta vegna af því besta í innlendri kvikmyndagerð.
Í ár verður verkum þýska leikstjórans Rainers Werners Fassbinders skipað í öndvegi og sýnt verður veglegt úrval verka hans, en í ár eru liðin 25 ár frá því að Fassbinder lést.
Fassbinder var með iðnustu kvikmyndaleikstjórum kvikmyndasögunnar og leikstýrði 43 myndum á ferlinum. Afköstin eru ótrúleg í ljósi þess að Fassbinder lést einungis 37 ára að aldri.