arnim@mbl.is
Í dag, eða öllu heldur í nótt, kom út sjöunda bókin um Harry Potter, sú síðasta í röð metsölubókanna miklu eftir Joanne Kathleen Rowling. Það segir sitt að áður en bókin kom út höfðu selst af henni margar milljónir eintaka, fyrirframpantanir voru víst á fjórðu milljón eintaka. Mikið er og um bókina ritað á vefsetrum og í blöðum, öryggisgæsla náði nýju hámarki til að tryggja að ekkert spyrðist út um sögulokin og menn kepptust um að giska á hver endirinn yrði – sumir gengu svo langt að skrifa umsögn um bókina áður en hún kom út og ef marka má þær umsagnir sem hægt er að lesa á netinu voru allmargir að skrifa um bók sem þeir ekki höfðu lesið, því svo ólíkar eru umsagnirnar hvað varðar endi sögunnar. Hvað sem því líður er þó eitt ljóst; sagan af Harry Potter, sjö bækur, 4.200 síður alls, er öll.
Bókaröðinni um Harry Potter svipar um margt til annarra barnabóka sem segja frá því er ungmenni þroskast með því að glíma við ýmsar þrautir. Eins er til legíó af bókum sem flétta töfrum og illum öflum saman við söguþráðinn til að auka spennu eða gefa lit. Einnig eru bækurnar dæmigerðar fyrir verk sem leggja áherslu á vináttu og traust, þó æ erfiðara verði að átta sig á hverjir eru raunverulegir vinir og hverjum eigi að treysta eftir því sem líður á bækurnar.
Rowling hefur ekki gefið upp neina sérstaka höfunda sem áhrifavalda en þó sagst hafa sótt innblástur í svo ólíka höfunda sem Jane Austen, Shakespeare, TH White og Susan Cooper, aukinheldur sem menn sjá líkindi með ákveðnum þáttum í sögunni og ævi og verkum Elizabeth Goudge, Eva Ibbotson og Jessica Mitford.
Í kjölfarið var Harry Potter fluttur til móðursystur sinnar, Petunia Dursley, og elst upp hjá henni, Vernon manni hennar og Dudley syni þeirra.
Þó Harry Potter sé barn galdramanns, James Potter, eru Dursley-hjónin og sonur þeirra mjög andvíg allri ónáttúru og kukli og Harry er refsað miskunnarlaust ef hann sýnir einhverja tilburði í þá átt. Svo kemur þó að hann er kallaður í skóla, galdraskólann í Hogwarts, og þrátt fyrir mótþróa Dursley-hjónanna heldur Potter hinn ungi í skólann og kemst þá loks að því hver uppruni sinn er og ætt.
Eftir það gerast bækurnar að mestu leyti í Hogwarts-skólanum og hver bók segir frá einu skólaári. Í lok hverrar bókar glímir Harry síðan við þraut, en þær verða óttalegri með hverri bókinni.
Í íslenskri þýðingu heita bækurnar Harry Potter og viskusteinninn, Harry Potter og leyniklefinn, Harry Potter og fanginn frá Azkaban, Harry Potter og eldbikarinn, Harry Potter og Fönixreglan og Harry Potter og blendingsprinsinn, en sjöunda bókin, Harry Potter and the Deathly Hallows, sem kemur út í dag á ensku, verður gefin út á íslensku 15. nóvember næstkomandi. Ekki er kominn á hana íslenskur titill.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.