Eldheitt hommapopp er fyrirsögn umfjöllunar slúðurkóngsins Perez Hilton um nýjasta myndband Páls Óskars Hjálmtýssonar, "Allt fyrir ástina".
Það er ekki ofsögum sagt að slúðursíða bloggarans sem kallar sig Perez sé ein sú vinsælasta í heimi en alls skoða 3,5 milljónir manna síðu hans daglega. Perez er fátt heilagt og hann liggur ekki á skoðunum sínum um menn og málefni í Hollywood.
Fregnir af Björk hafa nokkrum sinnum ratað inn á síðuna í gegnum tíðina en nú er komið að Páli Óskari að vera fulltrúi lands og þjóðar í slúðurgini Perezar. Reyndar fylgir færslunni lítill texti, myndabandið er til sýnis og undir stendur: "Við vitum ekki einu sinni hvað hann er að segja en... Þetta er svo hallærislega fyndið!" Fyrirsögnin er svo Eldheitt hommapopp.
Tami nokkur segir myndbandið minna á "Oops! I Dit it Again" í flutningi Britney Spears, nema samkynhneigðir menn stígi dans með Palla í stað "hvíta hyskisins" sem tjúttaði með Britney.
Talsvert er fjallað um útlit Páls Óskars og líkindi milli hans og annarra frægra einstaklinga.
Daisy nokkur segir Pál Óskar minna á David Bowie og G segir hann geta verið afkvæmi leikarans Christian Bale og Adam Levine, úr Maroon 5.
Georgina segist hafa vonast til þess að myndbandið endaði á "Just Jack" eins og Jack í sjónvarpsþáttunum Will og Grace hefur gert frægt og annar lesandi hefur orð á hve líkir Jack og Páll Óskar séu.
"Ekkert jafnast á við hallærislegt júrópopp" segir svo UKer en fjölmargir Íslendingar taka upp hanskann fyrir sinn mann og segja Pál Óskar réttilega vera eina skærustu söngstjörnu landsins.
Páll Óskar segist ekkert hafa vitað um málið fyrr en sms-skilaboðum hafi tekið að rigna inn í fyrrakvöld þar sem fólk lofaði framistöðuna á síðu Perezar.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.