Heimsfrumsýning fyrstu kvikmyndarinnar sem gerð hefur verið um Simpson-fjölskylduna frægu mun eiga sér stað í bandaríska bænum Springfield í Vermont-ríki. Bærinn, sem ber að sjálfsögðu sama heiti og heimabær Simpsons-fjölskyldunnar, varð heiðursins aðnjótandi í kjölfar netkosningar.
Valið stóð á milli 14 bæja sem allir bera nafnið Springfield. Öll bæjarfélögin sendu inn myndband í keppnina þar sem færð voru rök fyrir því hvers vegna viðkomandi bær ætti að sigra.
Ísframleiðandinn Ben & Jerry's, sem er frá Vermont, ætlar í tilefni dagsins að afhjúpa nýjan ís, en sjálfur Homer Simpson veitti ísframleiðandanum innblástur við ísgerðina.
„Við erum öll svo stolt,“ sagði hin 56 ára gamla Judi Martin, sem býr í Springfield.
Rétt rúmlega 9.000 manns búa í bænum sem hlaut alls 15.367 atkvæði sem hinn eini sanni Springfield Simpsons-fjölskyldunnar. Næst á eftir kom Springfield í Illinois-ríki í Bandaríkjunum, en alls munaði 733 atkvæðum á milli bæjanna í kosningunni sem USA Today stóð að.