Leikkonan Mischa Barton, sem meðal annars lék í sjónvarpsþáttunum O.C., hefur áhuga á að leika í kvikmynd um njósnarann James Bond. Segist hún vera mikill aðdáandi myndanna og ætli að reyna að fá hlutverk í næstu mynd um Bond.
Ef Barton verður að ósk sinni að verða næsta Bond-stúlka fetar hún í fótspor leikkvenna eins og Halle Berry, Eva Green, Ursula Andress og Honor Blackman. En Barton er ekki ein um hituna því leikkonan Juliette Lewis hefur ekkert á móti því að hreppa hnossið. Segir Lewis, sem meðal annars lék í kvikmyndinni Natural Born Killers, að hún yrði ekki síðri Bond-stúlka heldur en fyrirrennarar hennar. Það þurfi einungis að klæða hana í svart bikíní og fá henni sverð í hendur þá sé hún fullfær um hlutverkið.