Sænski leikstjórinn Ingmar Bergman er látinn, 89 ára að aldri. Bergman þótti brautryðjandi á sínu sviði og var þekktur fyrir kvikmyndir á borð við Fanny og Alexander og Vetrarljós.
Hann var tilnefndur til níu Óskarsverðlauna, en myndir hans unnu þrisvar sinnum til verðlauna fyrir bestu erlendu kvikmyndina. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Bergman lést á heimili sínu í Faro í Svíþjóð. Hann var faðir átta barna, þar af einnar stúlku sem vissi ekki af faðerni sínu fyrr en hún var 22 ára. Hann kvæntist fimm sinnum um ævina, síðast kvæntur Ingrid von Rosen. Verk hans fjölluðu oft um spennu milli hjóna.
Áhuginn á kvikmyndum byrjaði snemma
Bergman fæddist árið 1918. Faðir hans var strangtrúaður kapelluprestur sænsku konungsfjölskyldunnar. Sem barn hjálpaði Berman til í kvikmyndahúsi bæjarins og fór í framhaldinu í leiklista- og leikstjórnunarnám við Háskólann í Stokkhólmi.
Árið 1944 varð hann leikstjóri í Borgarleikhúsi Helsingborgar, sama ár og fyrsta kvikmyndahandrit hans var fest á filmu af Alf Sjoberg.
Bergman leikstýrði fyrstu kvikmynd sinni af fjörutíu, Kreppu, árið 1946. Frægust mynda hans er líklega Sjöunda innsiglið frá árinu 1957, en atriðið þar sem ein persónan spilar skák við dauðann er meðal frægustu atriða kvikmyndasögunnar.