Tónlistarhátíðin Bræðslan fór fram um helgina og á meðal þeirra sem komu fram var Magni rokkstjarna sem frumflutti efni af væntanlegri sólóplötu. Ágætur rómur var gerður að tónleikunum og ljóst að Magni hyggur á heimsyfirráð eða ... eitthvað þaðan af minna.
Til að hjálpa sér með heimsfrægðina ku Magni vera kominn í samband við umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í að koma á framfæri hæfileikafólki sem komist hefur langt í raunveruleikaþáttum á borð við American Idol. Verður það að teljast deginum ljósara að ef eitthvað er að marka frammistöðu Magna í Rock Star þáttunum þá eigi hann greiða leið að hjörtum Bandaríkjamanna – en þangað til verða íslensk hjörtu víst að duga.
Magni kemur fram á sérstöku Reykjavíkur-húkkaraballi annað kvöld á Gauki á Stöng og með honum verða ekki einungis félagar hans í Á móti sól heldur einnig Ástralinn og Rock Star-vinur Magna, Toby Rand. Reikna má með skemmtilegum tónleikum enda Toby hrókur alls fagnaðar og hver veit nema Magni taki akústíska útgáfu af Radiohead-laginu "Creep."