Íbúar í Barcelona á Spáni eru ævareiðir yfir því að borgaryfirvöld skuli nota hluta af þeirra skattfé til þess að fjármagna nýjustu kvikmynd bandaríska leikstjórans Woody Allens.
Allen er staddur í borginni við tökur á nýjustu kvikmynd sinni með þeim Penélope Cruz, Javier Bardem og Scarlett Johansson sem fara með aðalhlutverkin.
Borgaryfirvöld í Barcelona og Katalóníustjórn greiða 10% framleiðslukostnaðar myndarinnar, en féð kemur úr vösum skattgreiðenda sem hafa margir hverjir aðrar hugmyndir um það hvernig verja megi fénu.