Johnny Deep gerði hinn rommþambandi Jack Sparrow ódauðlegan með magnaðri túlkun sinni á hinum vingulslega sæfara í myndunum um sjóræningja Karíbahafsins. Nú liggja hins vegar fyrir áform um að kappinn framleiði og leiki í kvikmyndaaðlögun á sjálfsævisögu Hunters S. Thompson, The Rum Diary (Rommdagbókin).
Bókin lýsir áfengisknúnu ævintýri fréttaritara í Puerto Rico um miðja síðustu öld. Þrátt fyrir að bókin sé rituð árið 1959 kom hún ekki út fyrr en árið 1998.
Depp hefur reynt að hrinda þessari kvikmyndaframleiðslu af stað undanfarin sjö ár. Hann hefur löngum verið mikill aðdáandi Thompson, en sá síðarnefndi var þekktur rithöfundur, en einnig kunnur fyrir að hafa mótað svokallaða „Gonzo"-blaðamennsku (sjálfsmiðaða blaðamennsku). Hún felur í sér að blaðamaðurinn tekur virkan þátt í hasarnum sem hann skrifar og fjallar um, og það með svo afgerandi hætti að hann verður í raun miðpunktur frásagnarinnar.
Johnny Deep hefur áður leikið uppdiktaða útgáfu af blaðamanninum í mynd Terrys Gilliam, Fear and Loathing in Las Vegas (ísl. Ótti og óbeit í Las Vegas), frá árinu 1998, og þótti fara á kostum á hinu súrrealíska ferðalagi um víðáttur dóps, áfengis og Bandaríkjanna.