Leikkonan Reese Witherspoon mun brátt verða „sendiherra“ snyrtivörufyrirtækisins Avon á heimsvísu. Witherspoon, sem hefur m.a. gert garðinn frægann í kvikmyndum á borð við Walk The Line og Legally Blonde, mun verða heiðursforseti Avon-sjóðsins, en það er góðgerðarstofnun sem styður konur og fjölskyldur þeirra.
Witherspoon, sem er 31s árs, segir að hún hafi hrifist af verkefnum sjóðsins og því sem hann standi fyrir, þ.e. að styðja við bakið á konum vítt og breitt um heiminn bæði fjárhagslega og félagslega.
Avon konur hafa gengið hús úr húsi og selt vörur fyrirtækisins frá árinu 1886.
Um fimm milljónir sölufulltrúa eru starfandi á vegum fyrirtækisins í 100 löndum. Í Bretlandi eru viðskiptavinirnir um átta milljón talsins, segir á vef BBC.
Samkeppnin á þessu markaði hefur hinsvegar aukist mjög á undanförnum árum og af þeim sökum hefur fyrirtækið þurft að endurnýja sig.
Brjóstakrabbamein, heimilisofbeldi og neyðarhjálp verða þau verkefni sem Witherspoon mun einblína á í starfi sínu hjá sjóðnum sem var stofnaður árið 1955.