Kaupþing fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir og stendur fyrir tónleikum á Laugardalsvelli föstudagskvöldið 17. ágúst. Meðal listamanna sem þar munu koma fram eru Bubbi Morthens, Stuðmenn, SSSÓL, Björgvin Halldórsson, Garðar Thor Cortes, Todmobile, Nylon og strákasöngsveitin Luxor sem kemur fram í fyrsta skipti. Veislustjóri verður Páll Óskar Hjálmtýsson.
Fram kemur í tilkynningu frá Kaupþingi, að hljóð og ljósabúnaður verði sá umfangsmesti sem settur hafi verið upp í Laugardal. Risaskjáir hafi verið sér fluttir inn til landsins til að varpa myndrænum þætti tónleikanna sem víðast um Laugardalinn. Sérstakt færanlegt gólf verður flutt inn frá Wembley leikvanginum í Bretlandi til að hlífa grasinu í Laugardal.
Tónleikarnir verða einnig sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpinu og hefst útsendingin strax að loknu Kastljósi og stendur til klukkan 23.