Gunnar B. Guðmundsson leikstýrir Astrópíu, en hann kveður hana hafa verið um það bil sex ár í bígerð. Margir muna eflaust eftir glettilegu, súrrealísku örverki sem hann gerði um árið, Karamellumyndinni rómuðu, en hún hlaut Edduna árið 2003, og var auk þess tilnefnd fyrir besta handrit, leikstjórn, brellur og leikmynd, svo dæmi séu nefnd. En hver er maðurinn á bakvið leikstjórann, lesendum til frekari glöggvunar?
Gunnar hlær dillandi hlátri; hann er bersýnilega galvaskur maður og hláturmildur. „Undanfarin ár hef ég unnið í leikhúsi, gert auglýsingar, músíkvídeó, heimildardótarí og þannig lagað. Ég er í raun ekkert lærður, fór í Kvikmyndaskólann 1992, fyrsta árið sem hann var starfræktur; það var bara ein önn eða svo; síðan var ég í Listaháskólanum í fræðum og framkvæmd í leiklistardeild, en þurfti að fresta því námi vegna gerðar Astrópíu."
Gunnar rekur svo enn upp hlátur; segir að nú sé fresturinn raunar orðinn svo langur að hann þyrfti sennilega að þreyja inntökuprófið að nýju, hygðist hann halda áfram.
Gunnar kveðst mjög ánægður með myndina, og þykir greinilega gaman að spjalla um hana. „Þetta er tveggja heima mynd; hún gerist bæði í köldum raunveruleika og spennandi ævintýrum – það er í rauninni brandarinn í þessu: nördar sem breytast í ofurhetjur, en eru samt áfram nördar þó svo að þeir séu komnir í ofurhetjubúninginn."
Gunnar kveður leikarana fara á kostum. „Þetta er eiginlega mynd senuþjófanna; allir eiga sín móment – litlir hlutir verða stórir, og hlutir sem voru kannski ekki einusinni í handritinu eru allt í einu orðnir vel sýnilegir."
Að lokum segir Gunnar nóg af verkefnum lúra í pípunum, en klykkir út með lýsingu á Astrópíu: „Þetta er ekta „bíómynd", bara góð skemmtun, hasar, mikið grín; þetta er poppkornsmynd, svona til að menn geti fundið eitthvað að gera á meðan þeir borða poppið."