Draumur sex ára gamallar stúlku er að engu orðin eftir að Simon Cowell, sem er þekktur sem dómari í American Idol þáttunum, hætti við að gera hana að söngstjörnu..
Hin sex ára gamla Connie Talbot heillaði breska sjónvarpsáhorfendur upp úr skónum í þættinum Britain's Got Talent þegar hún söng „Somewhere Over The Rainbow“ í júní.
Cowell var yfir sig hrifinn af stúlkunni og hét því að bjóða stúlkunni upp á plötusamning. „Að sjálfsögðu er plötusamningur hjá Sony BMG (útgáfufyrirtæki hans) á borðinu. Ég spái því að Connie muni selja fleiri plötur en Joss Stone á þessu ári,“ sagði Cowell.
„Connie mun ekki syngja framar fyrir Sony BMG,“ sagði faðir stúlkunnar, Gavin Talbot, dapur í bragði. „Þrátt fyrir það sem var sagt við okkur í upphafi þá hefur Simon og umboðsmönnum hans snúist hugur.“
„Við höfðum áhyggjur af því að færa Connie slæmu tíðindin. Hana langaði svo til þess að vinna með Simon. Hún varð fyrir svo miklum vonbrigðum,“ sagði faðir stúlkunnar.