Fyrsti skóladagurinn í hinum svokallaða „englaskóla“ Mörtu Lovísu Noregsprinsessu var í dag.
Nemendur þar vonast til að Marta geti hjálpað sér að ná sambandi við engla, og hefur hver um sig reitt fram sem svarar um 120 þúsund íslenskum krónum í skólagjöld fyrir hverja önn.
Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.
Marta Lovísa lýsti því yfir fyrir ekki löngu síðan að hún væri skyggn. Hefur hún sætt miklu ámæli síðan og margir orðið til að krefjast þess að hún afsali sér prinsessutigninni.
Skólann, sem heitir reyndar Astarte Education, rekur prinsessan ásamt Elisabeth Samnöy, og þegar dyrnar voru opnaðar í dag beið mikill her fjölmiðlafólks fyrir utan. Marta sagði að það kæmi ekki til greina að úr yrði einhverskonar fréttamannafundur. Hún væri búin að segja allt sem hún vildi segja um málið.
Marta bað síðan fjölmiðlafólkið vinsamlegast um að láta nemendur skólans í friði.
Astarte Education býður upp á þriggja ára nám í heilun, handayfirlagningu og fleiru. Á vef skólans er ítrekað, að námið sé ekki opinberlega viðurkennt.
Einn nemendanna, Inger Middelthon frá Lillehammer, var ákaflega ánægð og hrifin af Mörtu Lovísu, sem hún sagði hafa staðið af sér ósanngjarna gagnrýni. „Þetta verður mjög spennandi,“ sagði Middelthon um skólann. Hún sagði að margir Norðmenn tryðu á aðrar víddir.