Förðunarvörur ætlaðar karlmönnum eru sífellt að verða vinsælli en hingað til hefur lítið af slíku staðið til boða. Árlega er gífurlegum upphæðum eytt í snyrtivörur hvers kyns en á síðasta ári keyptu bandarískir karlmenn snyrtivörur fyrir um hálfan milljarð íslenskra króna. Það er 7% aukning frá árinu á undan og um 42% aukning frá 2001, samkvæmt tímaritinu Forbes. Snyrtivörurisar á borð við Clinique, Clarins og Biotherm sjá sér nú hag í því að framleiða vörur sem ætlaðar eru körlum og telja nokkuð víst að vinsældir slíkra vara haldi áfram að aukast.
Að sögn Stellu Vattnes hjá Terma heildsölu, sem selur meðal annars merkið Biotherm Homme, eru ungir karlmenn alltaf að verða opnari fyrir því að farða sig.
„Það er ekki verið að tala um hefðbundnar vörur sem konum finnst sjálfsagt að nota eins og maskara og kinnalit, heldur er mest um að ræða vörur sem gefa frísklegt útlit. Nýja herralínan frá Biotherm samanstendur til dæmis af lituðu kremi, hyljara og bursta sem gefa húðinni smá lit. Um er að ræða litað gel fyrir ljósa og dökka húð sem gefur góðan raka og fallegan, léttan lit eins og viðkomandi hafi verið úti í sólinni. Gelið er alls ekki eins og meik heldur er þetta mun léttara efni sem er þvegið af í sturtunni og þar sem það gengur vel inn í húðina á það ekki að festast í skeggrótinni eins og hefur verið vandamál með mörg brúnkukremanna, en auðvitað er alltaf mælt með því að menn raki sig áður en þeir nota brúnkugefandi efni og noti kornaskrúbb til þess að útkoman verði sem best."
Nánar í Blaðinu