Hundruð manna afklæddust á jöklinum Aletsch í Sviss í gær fyrir bandaríska ljósmyndarann Spencer Tunick sem er heimskunnur fyrir að taka myndir af hópum af nöktu fólki í borgum og við kennileiti um allan heim. Myndatakan nú var að undirlagi umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace og verða myndirnar notaðar í auglýsingaherferð til að vekja athygli á hlýnandi loftslagi og bráðnandi jöklum.
Greenpeace segir, að mannslíkaminn sé jafn veikburða og jöklar eins og Aletsch, sem hopar um 100 metra á ári. Vonast samtökin til að myndir á auglýsingaspjöldum af notku fólki í kuldanum á jöklinum vekji hroll hjá stjórnmálamönnum og öðrum, sem taka þátt í opinberri umræðu, og sannfæri þá um að þörf sé á auknum aðgerðum gegn mengun og loftslagsbreytingum.
Talið er að um 600 manns hafi tekið þátt í ljósmyndatökunni, sem fór fram á neðri hluta jökulsins í um 2300 metra hæð. Lofthitinn var ekki óþægilegur eða 10-15 gráður.