Samkvæmisljónið Paris Hilton hefur samið um sátt í meiðyrðamáli, sem leikkonan Zeta Graff höfðaði gegn Hilton. Paris, sem sat í fangelsi fyrr á árinu, sleppur þannig við málaferli sem að öllum líkindum hefðu vakið óþægilega athygli fjölmiðla.
Graff höfðaði mál gegn Hilton og sakaði hana um að hafa orðið til þess að rógur um hana birtist í slúðurdálkum dagblaða. Hilton hélt því fram að Graff hefði ráðist á sig fyrir utan næturklúbb í New York vegna afbrýðisemi er Hilton dansaði við þáverandi unnusta sinn, og fyrrverandi unnusta Graff, Paris Latsis.
Dagblaðið The New York Post sagði frá því að Graff hefði reynt að rífa demantshálsmen af hálsi Hilton er henni var vísað út af næturklúbbnum vegna atviksins.
Ekki er vitað hve mikið Hilton greiddi Graff til að semja um málið.