Íslenska kvikmyndin Astrópía var frumsýnd í gærkvöldi við góðar undirtektir. Fréttavefur Morgunblaðsins hafði samband við Önnu Sveinbjarnardóttur kvikmyndafræðing og gagnrýnanda og spurði hana álits. „Mér fannst mjög gaman og mér fannst þetta mjög vel lukkað og vandað í alla staði og að mínu mati ættu allir að drífa sig með fjölskylduna," sagði Anna.
Önnu fannst reyndar kynning myndarinnar gefa örlítið ranga hugmynd um kvikmyndina. „Mér fannst kynningin gefa til kynna að þarna væri meiri hasar en raun ber vitni og að þetta væri meira í ætt við Dungeons and Dragons en það eru auðvitað dýrt að vera með slíkar senur í myndinni þannig að þetta eru meiri rólegheit og fjallar meira um persónurnar," sagði Anna.
Ýtarlegri dómur og umfjöllun um Astrópíu verður í Morgunblaðinu í fyrramálið.