Bókin Tinni í Kongó verður ekki tekin úr sölu Svíþjóð þrátt fyrir tilraunir sænsks manns, sem á rætur sínar að rekja til Kongó, til að fá bókina bannaða þar í landi. Hann er á þeirri skoðun að hún ýti undir kynþáttafordóma, en dómsyfirvöld í Svíþjóð eru á öðru máli og höfnuðu kröfu mannsins.
Jean-Dadou Monya fór í mál við Bonnier Carlsen, sem gefur út teiknimyndasögur Herge í sænskri þýðingu. Monya krafðist þess að bókin yrði tekin úr sölu og fjarlægð úr hillum sænskra bókasafna.
Monya sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að saksóknararnir hefðu skrifað honum bréf þar sem fram kemur að þeir hafi ákveðið að halda ekki áfram með málið af réttarfarsástæðum. Sér í lagi vegna þess að tímaramminn til þess að höfða slíkt mál væri útrunninn.
„Ég átti von á þessu,“ sagði hann. „Hvað mig sjálfan snertir þá fannst mér mikilvægt að draga athyglina á þeim kynþáttafordómum sem koma fram í þessari teiknimyndasögu sem eiga ekkert erindi á 21. öldinni.“
„Þessari bók er beint að börnum og það er ekki hollt að þau lesi slíkar bækur sem eru uppfullar af kynþáttafordómum, eins og t.d. þegar Tinni öskrar á Afríkubúa og kemur fram við þá eins og þeir séu letingjar.“ Bókin var gefin út á fjórða áratug síðustu aldar þegar Belgar réðu yfir því sem er nú Lýðveldið Kongó. Tinni í Kongó er önnur bókin um ævintýri Tinna, og óneitanlega sú umdeildasta.
Fyrr á þessu ári hóf námsmaður í Belgíu, sem er frá Kongó, málaferli í þeim tilgangi að fá sett lögbann á bókina í Belgíu. Borders bókaverslanirnar í Bretlandi eru nú byrjaðar að selja bókina sem teiknimyndasögur fyrir fullorðina en ekki börn.