Bjórdrykkja Kínverja hefur tvöfaldast á undanförnum áratug, samkvæmt japanskri könnun sem birt var í dag. Á síðasta ári voru 35 milljónir kílólítra af bjór framleiddir í Kína en það er 14,7% aukning frá árinu áður. Á síðasta áratug er aukningin hins vegar 109%. Á sama tíma jókst bjórneysla í heiminum um 33.6%.
"Frá því Kínverjar tóku við af Bandaríkjamönnum árið 2002 sem mestu bjórframleiðendur heims, hafa þeir haldið stöðu sinni og árið 2006 varð tveggja stafa framleiðsluaukning hjá þeim,” segir í skýrslu um könnunina. “Auk þess sem bætt lífskjör, sem fylgt hafa miklum hagvexti í Kína hafa ýtt undir bjórdrykkju, hefur bjórdrykkjumenningin nú borist frá ströndinni inn í landið.” Þá segir í skýrslunni að sennilega hafi loftslagsbreytingar einnig stuðlað að aukinni bjórdrykkju.
Á síðasta ári var framleiðsluaukning á bjór 0,2% í Bandaríkjunum en í Þýskalandi dróst framleiðsla saman um 0,5% og í Japan dróst framleiðslan saman um 0,4%.