Steingervingafræðingar í Bretlandi telja sig nú hafa komist að því hvað það er í útliti Will Smith, Peter Andre, Justin Timberlake, Thierry Henry, Brad Pitt, David Beckham, Johnny Depp og Kanye West sem heillar konur en það mun vera sterk frummannaeinkenni í andlitsbyggingu þeirra. Þetta kemur fram á fréttavefnum LiveScience.com.
Rannsóknir á höfuðkúpum manna í gegn um árþúsundin leiðir í ljós að konur hafa í gegn um tíðina hrifist af körlum sem hafa stutt bil á milli augnabrúna og efri varar en það er það andlitsfall karla sem líkist mest andlitsfalli simpansa. Telja sérfræðingarnir að hrifning kvenna á þessum einkennum hafi leitt til þeirrar þróunar að karlar hafi nú hlutfallslega styttri og breiðari andlit miðað við líkamsstærð en konur.
"Þróun andlitsfalls skiptir sköpum varðandi skilning okkar á því hvað heillar karla og konur í fari hvors annars,” segir Eleanor Weston, steingervingafræðingur við Natural History Museum í London og höfundur skýrslu um rannsóknina. “Við höfum komist að því að fjarlægðin á milli augabrúna og efri varar var sennilega mikilvægur þáttur í því að gera fólk aðlaðandi í fortíðinni líkt og nú.”
Í rannsókninni voru hlutföll reiknuð út í andlitum 68 karla og 53 kvenna í sunnanverðri Afríku. Þá voru samsvarandi útreikningar gerðir fyrir steingerðar höfuðkúpur tegundanna Homo erectus, Homo ergaster, Paranthropus boisei, Australopithecus africanus og Paranthropus robustus frá því fyrir 2,6 milljón árum síðan.
Rannsóknin leiddi í ljós að þrátt fyrir að líkamar karla séu að öllu jöfnu breiðari og stæltari en líkamar kvenna sé umræddur hluti andlits þeirra um það bil jafn langur og sami hluti í andliti kvenna. Borið saman við stærð höfuðsins eru því andlit karla mun samþjappaðri en andlit kvenna og á það bæði við um andlit nútímamanna og andlit þeirra frummanna sem rannsóknin náði til.
"Styttra uppandlit ýkir aðra andlitsþætti svo sem roða í kinnum og stærð kjálkanna en það er ekki endilega ástæðan að baki þessari þróun,” segir Weston og bætir því við að þróun í átt til minni augntönnum hafi einnig gert karlmenn minna ógnandi í augum óvina sinna en um leið meira aðlaðandi í augum kvenna.