Camilla, eiginkona Karls Bretaprins, tilkynnti í dag að hún myndi ekki mæta á minningarathöfn um Díönu prinsessu en í vikunni eru tíu ár liðin frá því að hún lést í bílslysi í París. Synir Díönu og Karls, William og Harry, höfðu boðið Camillu að mæta í minningarathöfnina sem fram fer á föstudaginn í kapellu í Lundúnum.
Í tilkynningu frá Camillu kemur fram að hún sé snortin vegna boðs þeirra bræðra. Hins vegar telji hún ekki rétt að mæta þar sem nærvera hennar gæti skyggt á hinn eiginlega tilgang minningarathafnarinnar, að minnast Díönu. Segist Camilla vera þakklát fyrir þann stuðning sem hún hafi fengið frá eiginmanni og sonum hans með þessa ákvörðun.
Ýmsir hafa gagnrýnt að Camillu skyldi vera boðið þar sem hún og Karl hófu ástarsamband áður en hjónabandi Karls og Díönu lauk.