N1 á nú vegasjoppurnar Staðarskála og Brú. Íslenskar hljómsveitir ferðast mikið um svæðið sem sjoppurnar eru á og hafa áhyggjur af fákeppninni sem nú hefur skapast.
„Við höfum áhyggjur af verri hamborgurum. Það er alvöru áhyggjuefni,“ segir Ingólfur Þórarinsson, Ingó Idol, um nýleg kaup N1 á Staðarskála, en fyrirtækið á fyrir vegasjoppuna Brú, sem er næsta sjoppa við Staðarskála. Ingó er í hljómsveitinni Veðurguðunum sem ferðast mikið um landið.
Hann hefur áhyggjur af fákeppninni sem nú hefur skapast við Hrútafjörð, en sjoppurnar tvær voru áður í harðri samkeppni um viðskiptavini.
„Hingað til höfum við stoppað í Brú á leiðinni norður en í Staðarskála á leiðinni til baka,“ segir Ingó og játar því að Veðurguðirnir hafi reynt að halda fjölbreytni í sjoppuvali. „Það er greinilega ekki hægt lengur. Það er mikil hætta á að þjónusta skerðist vegna fákeppninnar. Nú hefur maður ekkert um að velja.“
Nánar í Blaðinu