„Þeir sögðu mér þeir eldri hérna að þetta væri örugglega stærsta sumarið á öldinni," segir Ingi Úlfar Helgason hjá Sambíóunum, en rúmlega 510.000 gestir sóttu bíóhúsin yfir sumartímann í ár. Það er sex prósenta aukning frá því í fyrra þegar aðsóknin var 484.000 gestir.
„Það er alltaf aukning, en það voru náttúrlega stórar myndir í ár. Spiderman rétt kom inn í tímabilið, Harry Potter var líka mjög stór."
Sumaraðsókn í Bandaríkjunum er sú sjötta besta í sögunni, en miðasala hefur skilað yfir 250 milljörðum íslenskra króna, sem er met. Aðsóknin á Íslandi sló engin met, enda hefur veðrið verið með eindæmum gott í sumar og fólk því haldið frekar til á Austurvelli í stað þess að fara í bíó.
„Menn voru hræddir við veðrið [á Íslandi]," segir Ingi. „Aðsóknin hefði kannski verið miklu betri ef veðrið hefði ekki verið svona gott."
Nánar í Blaðinu