Harry prins sagði við minningarathöfn um móður sína, Díönu prinsessu, í dag að hún hafi verið besta móðir í heimi og að lát hennar hafi verið ólýsanlegt áfall og sorglegt. Þetta kom fram í máli prinsins við guðsþjónustu í Guards' Chapel í nágrenni Buckinghamhallar en í dag eru tíu ár liðin frá dauða Díönu í bílslysi í París.
Sagði prinsinn, sem var tólf ára þegar móðir hans lést, að hann og bróðir hans, William, geti skipt lífi sínu upp í tvennt. Tímann sem þeir áttu þegar þeir nutu samvista við foreldra sína og þau tíu ár sem liðin eru frá dauða móður þeirra.
Harry sagði að Díana hafi stutt þá með ráðum og dáð og að hennar verði ávalt minnst fyrir störf í þágu almennings.
Karl Bretaprins, fyrrum eiginmaður Díönu, og móðir hans Elísabet Englandsdrottning voru einnig viðstödd minningarathöfnina auk margra náinna vina prinsessunnar og fjölskyldu.