Harvey Goldsmith, sem sér um kynningarmál hljómsveitarinnar Led Zeppelin, hefur varað aðdáendur sveitarinnar við því greiða fyrir miða á hljómleika með henni þar sem engir tónleikar hafi verið skipulagðir með sveitinni, sem lagði upp laupana árið 1980. Hann neitar þó ekki háværum orðrómi um að til standi að Led Zeppelin hyggist koma fram á ný.
Í yfirlýsingu segir Goldsmith að í það minnsta fjórir hljómleikar hafi verið auglýstir án þess að til standi að hljómsveitin komi fram þar.
Orðrómur hefur verið uppi undanfarna mánuði um að sveitin ætli að koma saman á ný, og hefur hann orðið háværari eftir að tilkynnt var að til stæði að gefa út safnplötuna Mothership í nóvember nk. Talið er víst að Jason Bonham sjái þá um trommuleik, sonur trommuleikarans John Bonham, en hljómsveitin hætti störfum er hann lést árið 1980.
John Paul Jones, Robert Plant og Jimmy Page, eftirlifandi meðlimir hljómsveitarinnar hafa reyndar tvisvar komið fram eftir að hljómsveitin hætti störfum, á Live Aid tónleikunum árið 1985 og á 40 ára afmæli Atlantic plötuútgáfunnar árið 1988.