Ný samanburðarrannsókn á lífshlaupi 1.000 breskra og bandarískra tónlistarmanna hefur leitt í ljós að rokkstjörnur eru mun líklegri til að deyja fyrir aldur fram en landar þeirra. Sá munur er þó á þessum tveimur hópum að lífslíkur breskra rokkara verða sambærilegar við lífslíkur landa þeirra eftir miðjan aldur en lífslíkur bandarískra rokkara eru alla tíð lægri en lífslíkur almennings í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
Rannsóknin, sem unnin var af lýðheilsudeild John Moores háskólans í Liverpool, leiðir í ljós að tvisvar til þrisvar sinnum meiri líkur eru á að rokkstjörnum deyi fyrir aldur fram en landar þeirra. Rannsóknin náði til 1.064 tónlistarmanna sem voru á hátindi ferils síns á árunum 1956 til 2005 en á því tímabili létust 100 þeirra fyrir aldur fram.
Á meðal þeirra rokkstjarna sem létu lífið fyrir aldur fram á þessu tímabili eru Elvis Presley, Jim Morrison, söngvari Doors, gítarleikarinn Jimi Hendrix, Marc Bolan og Kurt Cobai, söngvari Nirvana. Þá leiddi rannsóknin í ljós að rúmlega fjórðungur þeirra sem létu lífið létust vegna ofneyslu áfengis og fíkniefna.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að hættan á ótímabærum dauða er mest fyrstu fimm árin eftir að tónlistarmenn öðlast frægð. Lifi breskar stjörnur í tuttugu og fimm ár eftir að þeim skýtur upp á stjörnuhimininn verða lífslíkur þeirra hins vegar aftur þær sömu og alls almenning í landinu. Þetta á ekki við um bandarískar stjörnur en dánartíðni þeirra heldur áfram að vera helmingi hærri en alls almennings í landinu. Er líkum leitt að því í skýrslunni að þetta megi rekja til mismunar á heilbrigðiskerfum landanna og þess að algengara sé að bandarískra stjörnur “lifi hátt” fram eftir aldri en breskar.
"Rannsóknin dregur upp skýra mynd af samfélagi rokk og poppstjarna sem búa við óvenjumikla hættu á dauðadaga tengdum ofnotkun áfengis og fíkniefna,” segir Mark Belli, höfundur skýrslu um rannsóknina sem birt er í tímaritinu Journal of Epidemial Community Health.
Þá bendir hann á að niðurstöður rannsóknarinnar hljóti að vekja efasemdir um ágæti þess að rokkstjörnur séu fengnar til að taka þátt í í herferðum fyrir bættri lýðheilsu. “