Fjölmargir gestir á tónleikum Noruh Jones og M. Ward í Laugardalshöll á sunnudaginn mættu seint á tónleikana, og olli það töluverðri truflun þar sem tónlistin sem þar var leikin er fremur lágstemmd. "Stöðugt á meðan M. Ward flutti lög sín, sem flest öll voru í brothættari kantinum, voru bæði hann og áhorfendur truflaðir af hávaða frá háum hælum sem glumdu í parketi Laugardalshallarinnar og fólki sem var að leita sæta sinna í myrkum salnum," segir meðal annars í dómi Ágústs Bogasonar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.