Mikið drama vermir tékkneska þjóðleikhúsið um þessar mundir. Vaclav Havel, leikskáld og fyrrum forseti landsins, hefur dregið til baka verk sem taka átti til sýninga þar á leikárinu, þar sem forsvarsmenn leikhússins telja sig ekki geta orðið við kröfu Havels um að Dagmar Havlova, eiginkona skáldsins til tíu ára, fari með aðalhlutverkið.
Havel hefur sagt að hann hafi samið verkið sérstaklega fyrir Dagmar og fáist verkið ekki sett upp í þjóðleikhúsinu með henni í aðalhlutverki fari hann annað með verkið.
Lér og sjálfsævisagan
Vaclav Havel var þegar þjóðkunnur af leikverkum sínum árið 1989 þegar hann leiddi flauelsbyltinguna í landi sínu. Hann var forseti landsins til ársins 2004. Lítið hefur verið gefið upp um efni nýja leikritsins annað en að það byggist á hvoru tveggja, leikriti Shakespeares Lé konungi, og sjálfsævisögu skáldsins sjálfs. Plottið er sagt hverfast um háttsettan stjórnmálamann sem hyggst draga úr áhrifum sínum og völdum.
Frúin var skáldinu innblástur
Havel hefur í kjölfar ágreiningsins verið sakaður um yfirgang og ráðríki, en samkvæmt erlendum fréttamiðlum kveðst hann hafa lofað konu sinni að þau hefðu samstarf um uppsetningu verksins, og sagði að hún hefði verið honum mikill innblástur meðan á ritun þess stóð. Dagmar Havlova, sem er kunn gamanleikkona í heimalandi sínu, hefur sjálf dregið sig út úr ráðagerðum eiginmanns síns.
Forsvarsmaður þjóðleikhússins sagði reglur leikhússins ekki leyfa ráðningu gestaleikara. Leikhússtjórinn, Ondrej Cerny, hefur þó lýst sig reiðubúinn að taka aftur upp viðræður við Havel um uppfærslu verksins í sátt.