„Hvert kvöld skartar einu landskunnu söngvaskáldi sem opnar kvöldið, en svo taka aðrir við. Við höfum fengið til liðs við okkur fullt af góðum söngvaskáldum," segir Jakob, en á meðal þeirra sem koma munu fram í vetur eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Magnús Þór Sigmundsson og Dr. Gunni.
„Sá sem ríður á vaðið er hins vegar á meðal afkastameiri söngvaskálda okkar tíma; óðmaðurinn, júdasinn og trúbrjóturinn Magnús Kjartansson. Það er sjaldgæft að hann gefi kost á svona löguðu en með sameinuðu átaki tókst að eggja hann til dáða og hann ætlar að viðra nýtt efni í bland við eldra," segir Jakob, en þess má geta að fyrsta lag hvers kvölds verður sýnt í beinni útsendingu í Kastljósi Sjónvarpsins.
„Þegar söngvaskáld hafa tæmt úr skjóðum sínum koma svo snarstefjunar- og spunameistarar með horn sín og rafgíur og þá þróast þetta yfir í "jam-session"-spuna," segir Jakob, en auk Magnúsar munu þau Magga Stína, Fabúla og Valgeir Skagfjörð koma fram í kvöld. Klukkan 22 verður svo skipt um gír því þá mun Djassklúbburinn Múlinn taka við með léttri sveiflu. "Þessi tónlistarstaður í miðborginni er nefnilega að taka á sig mynd sem sumir myndu lýsa sem mjög „erlendis"," segir Jakob um Domo.
Það er Félag tónskálda og textahöfunda í samstarfi við Félag íslenskra hljómlistarmanna sem stendur fyrir söngvaskáldakvöldunum. „En svo hefur tónsprotafyrirtækið Tónvís fallist á að vera okkur til halds og trausts, en það er nýsköpunarfyrirtæki FL Group í tónlistar- og vitundariðnaði," segir Jakob að lokum.
Þeir sem vilja taka þátt í söngvaskáldakvöldum í vetur geta sent póst og skráð sig á ftt@ftt.is.