Ítalski tenórsöngvarinn Luciano Pavarotti er látinn. Pavarotti sem var sjötíu og eins árs lést á heimili sínu í Modena af völdum krabbameins í briskirtli. Hann hafði verið lagður inn á sjúkrahús þann 8. ágúst síðastliðinn en útskrifaður tveimur vikum síðar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Pavarotti söng síðast opinberlega í upphafi síðasta árs er hann kom fram á opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Tórínó á Ítalíu. Hann gekkst síðan undir uppskurð vegna krabbameins í júlí á síðasta ári og hefur ekki sungið opinberlega síðan.