Taívanski leikstjórinn Ang Lee hlaut Gullna ljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í kvöld. Hlaut hann verðlaunin fyrir kvikmyndina Se Jie en þetta er í annað skiptið sem hann hlýtur Gullna ljónið. Myndin er byggð á skáldsögu Eileen Chang. Nektarsenur í myndinni vekja athygli en vegna þeirra er myndin bönnuð börnum undir 17 ára og Lee neyðist til að klippa stóran hluta atriðanna úr myndinni eigi hann að fá að sýna hana í Kína.
Brian De Palma hlaut Silfur ljónið fyrir kvikmyndina Redacted en í henni kemur fram hörð gagnrýni á Íraksstríðið. Cate Blanchett og Brad Pitt hlutu verðlaun sem besta leikkonan og leikarinn á hátíðinni.
Kvikmynd De Palma hefur vakið mikla athygli á hátíðinni en myndin lýsir hópi bandarískra hermanna sem í mars í fyrra nauðguðu, myrtu og brenndu 14 ára íraska stúlku og drápu aðra í fjölskyldu hennar.
Ken Loach hlaut verðlaun fyrir besta kvikmyndahandritið að myndinni It's a Free World og heiðursverðlaun Gullna ljónsins féllu í skaut ítalska leikstjórans Bernardo Bertolucci á 75. kvikmyndahátíðinni sem haldin er í Feneyjum en hún er elsta kvikmyndahátíðin sem enn er haldin.
Ang Lee minntist í ræðu sinni er hann tók við verðlaununum leikstjóranna Michaelangelo Antonioni og Ingmar Bergman sem létust báðir nýverið og tileinkaði verðlaunin Ingmar Bergman sem lést þann 30. júlí en Antonioni lést degi síðar.
Ang Lee hlaut Gullna ljónið fyrir tveimur árum fyrir kvikmyndina Brokeback Mountain en hann hlaut einnig Óskarsverðlaunin fyrir þá kvikmynd.