Japaninn Ochi „Dainoji" Yosuke reyndist vera fimastur með luftgítarinn á heimsmeistaramótinu í þessari list, sem fór fram í Oulu við heimskautsbaug í Finnlandi í vikunni. Í verðlaun fékk Ochi sérsmíðaðan alvöru gítar af gerðinni Flying Finn, sem verðlagður er á rúmar 200 þúsund íslenskar krónur.
Að sögn AP fréttastofunnar voru keppendur misflinkir með luftgítarinn. Sá sem kom mest á óvart í keppninni var Hilkka „Gore Kitty" Suvanto, sem býr í Oulu. Hann hefur tvívegis áður tekið þátt í keppninni og varð langneðstur í bæði skiptin. Nú fékk hann hins vegar fullt hús stiga frá nokkrum dómurinn og flaug í úrslitin.
Ochi stóð sig þó best í úrslitunum, sem fóru fram í rokkklúbbnum Teatria í gærkvöldi. Helstu keppinautar hans voru Frakkinn Guillaume „Moche Pitt" de Tonquedec og Austurríkismaðurinn Max „Herr Jaquelin" Heller.
Einn þeirra, sem þótti sigurstranglegur fyrirfram var Bandaríkjamaðurinn Andrew „William Ocean" Litz. Hann kann ekki að spila á gítar en lýkur jafnan atriði sínu með mikilfenglegu heljarstökki aftur á bak og lendir á bjórdollu. Hann náði þó aðeins 11. sæti.